Add parallel Print Page Options

35 Davíðssálmur. Deil þú, Drottinn, við þá er deila við mig, berst þú við þá er berjast við mig.

Tak skjöld og törgu og rís upp mér til hjálpar.

Tak til spjót og öxi til þess að mæta ofsækjendum mínum, seg við sál mína: "Ég er hjálp þín!"

Lát þá er sitja um líf mitt hljóta smán og svívirðing, lát þá hverfa aftur með skömm, er ætla að gjöra mér illt.

Lát þá verða sem sáðir fyrir vindi, þegar engill Drottins varpar þeim um koll.

Lát veg þeirra verða myrkan og hálan, þegar engill Drottins eltir þá.

Því að ástæðulausu hafa þeir lagt net sitt leynt fyrir mig, að ástæðulausu hafa þeir grafið gryfju fyrir mig.

Lát tortíming koma yfir þá, er þá varir minnst, lát netið, er þeir hafa lagt leynt, veiða sjálfa þá, lát þá falla í þeirra eigin gryfju.

En sál mín skal kætast yfir Drottni, gleðjast yfir hjálpræði hans.

10 Öll bein mín skulu segja: "Drottinn, hver er sem þú, er frelsar hinn umkomulausa frá þeim sem er honum yfirsterkari, hinn hrjáða og snauða frá þeim sem rænir hann?"

11 Ljúgvottar rísa upp, þeir spyrja mig um það sem ég veit ekki um.

12 Þeir launa mér gott með illu, einsemd varð hlutfall mitt.

13 En þegar þeir voru sjúkir, klæddist ég hærusekk, þjáði mig með föstu og bað með niðurlútu höfði,

14 gekk um harmandi, sem vinur eða bróðir ætti í hlut, var beygður eins og sá er syrgir móður sína.

15 En þeir fagna yfir hrösun minni og safnast saman, útlendingar og ókunnugir menn safnast saman móti mér, mæla lastyrði og þagna eigi.

16 Þeir freista mín, smána og smána, nísta tönnum í gegn mér.

17 Drottinn, hversu lengi vilt þú horfa á? Frelsa sál mína undan eyðileggingu þeirra, mína einmana sál undan ljónunum.

18 Þá vil ég lofa þig í miklum söfnuði, vegsama þig í miklum mannfjölda.

19 Lát eigi þá sem án saka eru óvinir mínir, hlakka yfir mér, lát eigi þá sem að ástæðulausu hata mig, skotra augunum.

20 Því að frið tala þeir eigi, og móti hinum kyrrlátu í landinu hugsa þeir upp sviksamleg orð.

21 Þeir glenna upp ginið í móti mér, segja: "Hæ, hæ! Nú höfum vér séð það með eigin augum!"

22 Þú hefir séð það, Drottinn, ver eigi hljóður, Drottinn, ver eigi langt í burtu frá mér.

23 Vakna, rís upp og lát mig ná rétti mínum, Guð minn og Drottinn, til þess að flytja mál mitt.

24 Dæm mig eftir réttlæti þínu, Drottinn, Guð minn, og lát þá eigi hlakka yfir mér,

25 lát þá ekki segja í hjarta sínu: "Hæ! Ósk vor er uppfyllt!" lát þá ekki segja: "Vér höfum gjört út af við hann."

26 Lát þá alla verða til skammar og hljóta kinnroða, er hlakka yfir ógæfu minni, lát þá íklæðast skömm og svívirðing, er hreykja sér upp gegn mér.

27 Lát þá kveða fagnaðarópi og gleðjast, er unna mér réttar, lát þá ætíð segja: "Vegsamaður sé Drottinn, hann sem ann þjóni sínum heilla!"

28 Og tunga mín skal boða réttlæti þitt, lofstír þinn liðlangan daginn.