Add parallel Print Page Options

18 Eftir þetta fór Páll frá Aþenu og kom til Korintu.

Þar hitti hann Gyðing nokkurn, Akvílas að nafni, ættaðan frá Pontus, nýkominn frá Ítalíu, og Priskillu konu hans, en Kládíus hafði skipað svo fyrir, að allir Gyðingar skyldu fara burt úr Róm. Páll fór til þeirra,

og af því hann stundaði sömu iðn, settist hann að hjá þeim og vann með þeim. Þeir voru tjaldgjörðarmenn að iðn.

Hann ræddi við menn í samkunduhúsinu hvern hvíldardag og reyndi að sannfæra bæði Gyðinga og Grikki.

Þegar þeir Sílas og Tímóteus komu norðan frá Makedóníu, gaf Páll sig allan að boðun orðsins og vitnaði fyrir Gyðingum, að Jesús væri Kristur.

En er þeir stóðu í gegn og lastmæltu, hristi hann dustið af klæðum sínum og sagði við þá: "Blóð yðar komi yfir höfuð yðar. Ekki er mér um að kenna. Upp frá þessu fer ég til heiðingjanna."

Og hann fór þaðan og kom í hús manns nokkurs, er hét Títus Jústus og dýrkaði Guð. Hús hans var hjá samkunduhúsinu.

Krispus samkundustjóri tók trú á Drottin og allt heimili hans, og margir Korintumenn, sem á hlýddu, tóku trú og létu skírast.

En Drottinn sagði við Pál um nótt í sýn: "Óttast þú eigi, heldur tala þú og þagna ekki,

10 ég er með þér. Enginn skal ráðast að þér og vinna þér mein, því að ég á margt fólk í þessari borg."

11 Hann var þar um kyrrt þrjú misseri og kenndi þeim orð Guðs.

12 En þegar Gallíón var landstjóri í Akkeu, bundust Gyðingar samtökum gegn Páli, drógu hann fyrir dómstólinn

13 og sögðu: "Maður þessi tælir menn til að dýrka Guð gagnstætt lögmálinu."

14 Páll bjóst til að svara, og þá sagði Gallíón við Gyðingana: "Væri hér um einhver lögbrot eða illvirki að ræða, bæri mér að sinna yður, Gyðingar.

15 En fyrst það eru þrætur um orð og nöfn og lögmál yðar, þá ráðið sjálfir fram úr því. Dómari í þeim sökum vil ég ekki vera."

16 Og hann rak þá burt frá dómstólnum.

17 Þá tóku þeir allir Sósþenes samkundustjóra og fóru að berja hann fyrir framan dómstólinn, og lét Gallíón sig það engu skipta.

18 Páll var þar enn um kyrrt allmarga daga, kvaddi síðan bræðurna og sigldi til Sýrlands og með honum Priskilla og Akvílas. Lét hann áður skera hár sitt í Kenkreu, því að heit hafði hvílt á honum.

19 Þeir komu til Efesus. Þar skildi hann við þá, en gekk sjálfur inn í samkunduhúsið og ræddi við Gyðinga.

20 Þeir báðu hann að standa lengur við, en hann varð ekki við því,

21 heldur kvaddi þá og sagði: "Ég skal koma aftur til yðar, ef Guð lofar." Síðan lét hann í haf frá Efesus,

22 lenti í Sesareu, fór upp eftir til Jerúsalem og heilsaði söfnuðinum. Síðan hélt hann norður til Antíokkíu.

23 Þegar hann hafði dvalist þar um hríð, hélt hann af stað og fór eins og leið liggur um Galataland og Frýgíu og styrkti alla lærisveinana.

24 En Gyðingur nokkur, Apollós að nafni, ættaður frá Alexandríu, kom til Efesus. Hann var maður vel máli farinn og fær í ritningunum.

25 Hann hafði verið fræddur um veg Drottins, og brennandi í andanum talaði hann og kenndi kostgæfilega um Jesú. Þó þekkti hann aðeins skírn Jóhannesar.

26 Þessi maður tók nú að tala djarflega í samkunduhúsinu. Priskilla og Akvílas heyrðu til hans, tóku hann að sér og skýrðu nánar fyrir honum Guðs veg.

27 Hann fýsti að fara yfir til Akkeu. Bræðurnir hvöttu hann til þess og rituðu lærisveinunum þar að taka honum vel. Hann kom þangað og varð til mikillar hjálpar þeim, sem fyrir Guðs náð höfðu tekið trú,

28 því hann hrakti skarplega rök Gyðinga í allra áheyrn og sannaði af ritningunum, að Jesús væri Kristur.