Add parallel Print Page Options

Set lúðurinn á munn þér! Eins og örn kemur hann yfir hús Drottins. Því að þeir hafa rofið sáttmála minn og vikið frá lögmáli mínu.

Þeir hrópa til mín: "Guð minn! Vér Ísraelsmenn þekkjum þig!"

Ísrael hefir hafnað blessuninni, fyrir því skulu óvinirnir elta hann.

Þeir hafa tekið sér konunga að mér fornspurðum, hafa valið sér höfðingja án minnar vitundar. Af silfri sínu og gulli hafa þeir gjört sér goðalíkneski, aðeins til þess að þeir tortímdust.

Andstyggilegur er kálfur þinn, Samaría. Reiði mín er upptendruð gegn þeim. _ Hversu langt mun þangað til þeir verða hreinir? _

Því að úr Ísrael er hann, hagleiksmaður hefir smíðað hann, en guð er hann ekki. Nei, kálfur Samaríu skal klofinn í spón.

Þeir sá vindi, og storm skulu þeir uppskera, útsæði sem ekkert strá sprettur upp af og ekkert korn fæst úr, og ef nokkuð fengist úr því, mundu útlendingar gleypa það.

Ísrael mun gleyptur verða, hann er nú þegar meðal þjóðanna eins og ker, sem enginn skeytir um.

Því að þeir hafa farið á fund Assýringa eins og villiasni, sem tekur sig út úr. Efraím falar ástir.

10 En þótt þeir fali ástir meðal þjóðanna, þá mun ég nú saman safna þeim, til þess að þeir hætti bráðlega að smyrja konunga og höfðingja.

11 Já, Efraím hefir reist mörg ölturu, ölturun urðu honum til syndar.

12 Þótt ég riti honum lögmálssetningar þúsundum saman, þá eru þær álitnar sem orð útlendings.

13 Þeir fórna sláturfórnum, kjöti og eta það, Drottinn hefir enga velþóknun á þeim. Nú mun hann minnast misgjörðar þeirra og vitja synda þeirra. Þeir skulu hverfa aftur til Egyptalands.

14 Ísrael gleymdi skapara sínum og reisti sér hallir, og Júda byggði margar víggirtar borgir, en ég vil skjóta eldi í borgir hans, og eldurinn skal eyða skrauthýsum hans.