Add parallel Print Page Options

En þessa nótt gat konungur ekki sofið. Bauð hann þá að koma með Annálabókina, og var hún lesin fyrir konungi.

Þá fannst þar skrifað, hversu Mordekai hefði komið upp um þá Bigtan og Teres, tvo geldinga konungs, af þeim er geymdu dyranna, sem höfðu leitast við að leggja hönd á Ahasverus konung.

Þá sagði konungur: "Hverja sæmd og upphefð hefir Mordekai hlotið fyrir þetta?" Þá sögðu sveinar konungs, þeir er þjónuðu honum: "Hann hefir ekkert hlotið fyrir."

Og konungur sagði: "Hver er í forgarðinum?" Í sama bili hafði Haman komið inn í ytri forgarð konungshallarinnar til þess að tala um það við konung að láta festa Mordekai á gálga þann, er hann hafði reist handa honum.

Og sveinar konungs sögðu við hann: "Sjá, Haman stendur í forgarðinum." Konungur mælti: "Látið hann koma inn."

En er Haman var inn kominn, sagði konungur við hann: "Hvað á að gjöra við þann mann, er konungur vill heiður sýna?" Þá hugsaði Haman með sjálfum sér: "Hverjum mun konungur vilja heiður sýna öðrum en mér?"

Og Haman sagði við konung: "Ef konungur vill sýna einhverjum heiður,

þá skal sækja konunglegan skrúða, sem konungur hefir klæðst, og hest, sem konungur hefir riðið, og konungleg kóróna er sett á höfuð hans.

Og skrúðann og hestinn skal fá í hendur einum af höfðingjum konungs, tignarmönnunum, og færa þann mann, sem konungur vill sýna heiður, í skrúðann og láta hann ríða hestinum um borgartorgið og hrópa fyrir honum: Þannig er gjört við þann mann, er konungur vill heiður sýna."

10 Þá sagði konungur við Haman: "Sæk sem skjótast skrúðann og hestinn, svo sem þú hefir sagt, og gjör þannig við Mordekai Gyðing, sem situr hér í konungshliði. Lát ekkert niður falla af öllu því, er þú hefir sagt."

11 Þá sótti Haman skrúðann og hestinn, færði Mordekai í og lét hann ríða um borgartorgið og hrópaði fyrir honum: "Þannig er gjört við þann mann, er konungurinn vill heiður sýna."

12 Síðan sneri Mordekai aftur í konungshliðið. En Haman skundaði heim til sín, hryggur og með huldu höfði.

13 Og Haman sagði Seres konu sinni og öllum vinum sínum frá öllu því, er fyrir hann hafði komið. Þá sögðu vitringar hans við hann og Seres kona hans: "Ef Mordekai, sem þú ert tekinn að falla fyrir, er af ætt Gyðinga, þá megnar þú ekkert á móti honum, heldur munt þú gjörsamlega falla fyrir honum."

14 Meðan þeir voru enn við hann að tala, komu geldingar konungs, og fóru þeir í skyndi með Haman til veislunnar, er Ester hafði búið.